Kosið verður um sameiningu á nýju ári

Teikning: Elín Elísabet og Rán Flygenring
Teikning: Elín Elísabet og Rán Flygenring
 

Hafnar eru sameiningarviðræður Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar, með það fyrir augum að íbúar kjósi um tillöguna í febrúar á næsta ári. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna er skipuð fjórum fulltrúum, en með nefndinni starfa bæjarstjóri Snæfellsbæjar og bæjarritari. Vinnuheiti verkefnisins er „Snæfellingar“. Fulltrúar í samstarfsnefnd eru Júníana Björg Óttarsdóttir og Björn H Hilmarsson frá Snæfellsbæ en frá Eyja- og Miklaholtshreppi þeir Eggert Kjartansson oddviti og Atli Svansson hreppsnefndarmaður.

Samstarfsnefnd hefur fundað vikulega síðan í september og er góður gangur í verkefninu. Ráðgjafafyrirtækið RR ráðgjöf er nefndinni til aðstoðar við verkefnið, en RR ráðgjöf hefur sérhæft sig í verkefnisstjórn og ráðgjöf við sameiningarverkefni. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur samþykkt að veita verkefninu framlag sem stendur undir kostnaði við verkefnið og verða íbúar sveitarfélaganna því ekki fyrir beinum kostnaði. Markmiðið að sameiningin styrki byggð og skapi frekari sóknartækifæri fyrir samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi.