Kosið um sameiningu 19. febrúar

Samstarfsnefnd um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar hefur unnið greinargerð um sameiningu sveitarfélaganna. Með vísan til þeirrar greiningar er það álit nefndarinnar að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu sveitarfélaganna í eitt.

Álit nefndarinnar og greinargerð hafa fengið tvær umræður í sveitarstjórnum sveitarfélaganna, án atkvæðagreiðslu, samkvæmt 2. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Atkvæðagreiðsla um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna fer fram laugardaginn 19. febrúar í báðum sveitarfélögunum. Við ákvörðun um kjördag hefur þess verið gætt að tillagan verði kynnt íbúum með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara eins og áskilið er í 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.