Góð þátttaka og mikil samstaða á Skólaþingi

Tæplega 50 einstaklingar tóku þátt í Skólaþingi á sunnanverðu Snæfellsnesi laugardaginn 22. janúar. Til Skólaþings var boðað til að hefja samræðu við íbúa og skólasamfélagið um framtíð skólastarfs á svæðinu. Verkefnið er liður í sameiningarviðræðum Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar. Þátttakendur lögðu áherslu á nauðsyn þess að framtíðarsýn um skólamál verði kynnt fyrir sameiningarkosningarnar. Íbúar þurfa að vita í hvaða átt á að fara.

,,Þessar sameiningarkosningar snúast um skólamál. Það skiptir ekki máli hvert við sækjum verslun, þjónustu og stjórnsýslu. Það skiptir máli hvert við sækjum skóla.“

Skólaþingið var haldið rafrænt í ljósi samkomutakmarkana. Eggert Kjartansson formaður samstarfsnefndar setti þingið áður en fulltrúar skólasamfélagsins héldu stutt erindi til að kveikja umræðuna. Erindin voru tekin upp og er upptaka aðgengileg hér.


Að erindum loknum var þátttakendum skipt í fjóra umræðuhópa og tóku um 30 einstaklingar þátt í þeim. Í umræðum komu ýmis sjónarmið fram, en samstaða er um að báðir skólarnir eru góðir og byggja á sínum styrkleikum. Ytri og innri úttektir undanfarinna ára hafa sýnt það.

Að mati þátttakenda er mjög mikilvægt að það sé einn skóli á sunnanverðu Snæfellsnesi og samfélag sem tengist þeirri einingu. Lögð var áhersla á að skóli er samfélag með fjölbreyttar þarfir, en það samfélag þarf miðlægan kjarna. Út frá þeim kjarna er hægt að skipuleggja. Flestir voru sammála um að sameina skólana, útmá hreppamörk og skapa eitt dreifbýlissamfélag sem stendur saman að rekstri fjölbreytts skólastarfs.

Ein helsta áskorunin framundan er að ná niðurstöðu um hvað verður um núverandi fasteignir og hvar nýr skóli verður staðsettur til skemmri og lengri tíma. Mikilvægt er að að hugsa það ferli í þrepum yfir hæfilegan tíma. Frá núverandi stöðu til þeirra framtíðarsýnar sem við viljum.

Fram kom að það er vaxandi eftirspurn eftir því að búa í dreifbýli. Ljósleiðaratenging sveitanna og breyttir atvinnuhættir hafa skapað ný og áður óþekkt tækifæri. Svo það sé hægt að grípa þau tækifæri, þá þarf að vera öflugur leik- og grunnskóli og blómlegt samfélag.