Spurt og svarað

 • Mega landeigendur á svæðinu kjósa þó þeir séu ekki með lögheimili á svæðinu?

  Sömu reglur gilda um atkvæðisrétt og við kosningar til sveitarstjórna. Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu, hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, 18 ára og eldri, hafa kosningarétt ef þeir eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu. Aðrir erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt hafi þér átt skráð lögheimili hér á landi þrjú ár samfleytt fyrir kjördag.

 • Ef til sameiningar kæmi, hvert munu íbúar í Eyja- og Miklaholtshreppi sækja heilbrigðisþjónustu?

  Ríkið rekur heilbrigðisþjónustu og íbúar geta áfram sótt heilbrigðisþjónustu þar sem þeir sækja hana núna.

 • Ef af sameiningu verður mun þá oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps taka við stöðu Bæjarstjóra í sameinuðu bæjarfélagi?

  Ef kemur til sameiningar sveitarfélaganna tveggja verður kosið í sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags þann 14 maí. Ný sveitarstjórn mun ráða framkvæmdastjóra sameinaðs sveitarfélags og getur samstarfsnefndin ekki svarað því hver verður ráðinn sem sveitarstjóri.

 • Hefði kannski verið lýðræðislegt að kanna vilja íbúa á sameiningarkostum yfirleitt áður en hreppsnefnd kastaði sínum einkahugmyndum á íbúa með þrýstingi um að samþykkja.

  Það er mat hreppsnefndar að sameiningarviðræður við Snæfellsbæ sé æskileg leið til að ná samstöðu um að styrkja byggð og samfélag á sunnanverðu Snæfellsnesi. Sérstaklega hvað varðar skólamál.

 • Væri ekki betri kostur að sameinast Grundarfirði og Stykkishólmi ef um semdist, þar sem mun styttra er að sækja þjónustu og skóla ca 36 km á hvorn stað ,en um 60 km í litla sem enga þjónustu í Ólafsvík ? Og svo mætti selja Laugagerði þar sem allur peningu

  Að mati Samstarfsnefndarinnar er vænlegt skref að sameina Eyja- og Miklaholtshrepp og Snæfellsbæ með það að markmiði að styrkja samfélagið og byggðina í dreifbýli á sunnanverðu Nesinu. Ekki síst í skólamálum. Vísbendingar eru um að sveitarfélögin á Snæfellsnesi sameinist í fleiri og smærri skrefum, Stykkishólmsbær og Helgafellssveit eru að hefja sameiningarviðræður.

 • Spurt var um fasteignagjöld og svarað að lækkun yrði á íbúðarhúsnæði. Þar var ekki sagt að iðnaðarhúsnæði myndi hækka verulega eða um 1%. Afhverju?

  Útsvar og fasteignaskattar skulu vera þeir sömu fyrir alla innan sama sveitarfélags samkvæmt lögum. Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði, þ.e. álagningarhlutfallið, er lægra í Snæfellsbæ en í Eyja- og Miklaholtshreppi. Á hinn bóginn er álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði nærri 1 prósentustigi lægra í Eyja- og Miklaholtshreppi.

  Fáar eignir í Eyja- og Miklaholtshreppi falla í flokkinn atvinnuhúsnæði. Vert er að ítreka að allar fasteignir til landbúnaðar falla í sama flokk og íbúðarhúsnæði og breytingin myndi ekki hafa áhrif á þær. Til að sameinað sveitarfélagið haldi sambærilegum tekjum er líklegt að miðað verði við sambærilegt álagningarhlutfall og er nú í Snæfellsbæ.

 • Hver verður stefnan hvað varðar landbúnað og landnotkun í sameiginlegu sveitarfélagi? Verður leyfilegt að grafa nýja skurði og brjóta nýtt land til að auka matvælaframleiðslu? eða á að moka ofan í skurði og hætta landnotkun til matvælaframleiðslu?

  Stefnan verður yfirfarin í nýju aðalskipulagi fyrir nýtt sveitarfélag ef að verður. Hins vegar má benda á nýlegt aðalskipulag Snæfellsbæjar þar sem all ítarlega er fjallað um landnotkun í sveitarfélaginu. Eins er rétt að minna á að almennt um landnotkun eru til gildandi lög t.d. hvað varðar mýrlendi svo eitthvað sé nefnt. Nefndin sem slík hefur ekki fastmótaðar skoðanir um það að banna landnýtingu á bújörðum og á ekki von á að það sé vilji til að banna eðlilega landnotkun t.d. á bújörðum.

   

   

 • Hvers vegna er ekki verið að ræða sameiningu fleiri sveitarfélaga á Snæfellsnesi?

  Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið. Að mati sveitarstjórnanna er æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost með það fyrir augum að styrkja byggð á sunnanverðu Nesinu. Það útilokar ekki stærri sameiningu í framtíðinni. 

   

   

 • Þurfa íbúar beggja sveitarfélaga, meirihluti hvors um sig, ekki að samþykkja svo af sameiningu verði?

  Einfaldur meirihluti í hvoru sveitarfélagi fyrir sig ræður niðurstöðu í sameiningarkosningum. 

   

   

 • Úr EM er enginn að sækja þjónustu eða atvinnu í Snæfellsbæ, mjög skrýtið beina ekki sjónum sínum að heildarsameiningu á öllu Snæfellsnesi sem er eitt atvinnusvæði, þá er Fjölbrautarskóli Snæfellinga að taka skólamálin sem eina heild einnig.

  Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið. Að mati sveitarstjórnanna er æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost með það fyrir augum að styrkja byggð á sunnanverðu Nesinu. Samstarfsnefndin telur að með þessari sameiningu skapist tækifæri til að styrkja dreifbýlið áður en til stærri sameininga komi í framtíðinni. 

   

   

 • Nú þegar hefur komið fram boð frá Grundfirðingum um samtal um sameiningu alls Snæfellsnes í eitt sveitarfélag. Öllum ætti það að vera ljóst að það er framtíðin og afhverju eigum við að fresta þeirri framtíð. Setjum krafta okkar og fjármuni í Það.

  Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið. Að mati sveitarstjórnanna er æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost með það fyrir augum að styrkja byggð á sunnanverðu Nesinu. Það útilokar ekki stærri sameiningu í framtíðinni. 

   

   

 • Einbeitum okkur að stærri sameiningu, alls Snæfellsness. Vigt íbúa EM í þeirri samræðu og kosningu er meiri ef EM er sjálfstætt heldur en yfirtekið af Snb.

  Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið. Að mati sveitarstjórnanna er æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost með það fyrir augum að styrkja byggð á sunnanverðu Nesinu. Það útilokar ekki stærri sameiningu í framtíðinni. 

   

   

 • Fundurinn var ekki góður. Sem samráðsfundur var samráðið ekkert þar sem fólki var ekki boðið að tjá sig upp í pontu til að reyfa málin og allir heyrðu (streymið ). Einungis var boðið að koma með beinar spurningar úr sal og spurningum var ekki svarað

  Samkomutakmarkanir settu mark sitt á fundarformið. Samráð við íbúa gekk vel. Það voru rúmlega 100 þátttakendur á fundinum og bárust 56 ábendingar og spurningar rafrænt, auk þeirra sem bárust munnlega á fundinum. 

   

   

 • Getur sameinað sveitafelag ekki gengið í samstarfið um byggingar og skipulagsfulltrúa með Grundarfirði og Stykkishólmi?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags getur ákveðið það. 

   

   

 • Eru einhverjar hugmyndir varðandi húsnæðismál eða skipulagt byggingarsvæði fyrir nýbyggingar á sunnanverðu Sæfellsnesi?

  Megin ástæða fyrir sameiningarviðræðunum er vilji beggja sveitarstjórnanna að styrkja dreifbýlið á sunnanverðu Snæfellsnesi og verður unnið í samræmi við það í nýju fjárhagslega sterku sveitarfélagi. Í skipulagi Snæfellsbæjar er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja íbúðir á landsvæði fyrir neðan Hraunhöfn. Einnig er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja á Arnarstapa og er það í aðalskipulagi/deiliskipulagi. Eins hafa verið áform um slíkt á svæðinu við Laugagerðisskóla. Eins er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi Snæfellsbæjar að byggja megi allt að 5 hús á hverri jörð.

   

   

 • Nú eru 2 grunnskólar á sunnanverðu nesinu. Hver er framtíðarsýnin?

  Nefndin leggur til að í sameinuðu sveitarfélagi verði einn grunnskóli og einn leikskóli, en með fleiri kennslustaði. Á íbúafundi þann 16. nóvember komu fram skýrar ábendingar um að vinna hratt og örugglega að því að móta framtíðarsýn í skólamálum á sunnanverðu Nesinu. Verði sameiningartillagan samþykkt í febrúar mun sú vinna hefjast án tafar í samráði við skólasamfélagið. 

   

   

 • Hvað verður um nemendur í Laugargerðisskóla sem ekki eiga lögheimili í Eyja- og Mikla? það er að segja úr Kolbeinsstaðarhreppi?

  Það er foreldra þeirra og sveitarstjórnar Borgarbyggðar að taka þær ákvarðanir.

   

   

 • Væri hægt að hafa heimastjórnir í sameinuðu sveitarfélagi, líkt og fyrir austan, og þær heimastjórnir hefðu t.d. umsjón með fasteignum eins og Breiðabliki?

  Það hefur verið rætt, en nefndin leggur til að áhersla verði á beint samráð við íbúa frekar en svæðisbundnar stjórnir. 

   

   

 • Hverju ætla sameinuð sveitarfélög að breyta hjá sér til að stuðla að bættum umhverfismálum? Er gert ráð fyrir auknum fjárframlögum til þeirra mála?

  Sveitarfélögin eru stolt af stöðu umhverfismála og eru í farabroddi þar á landsvísu þó alltaf megi gera betur. Innan sveitarfélaganna eru fjöldi friðlýstra svæða og Þjóðgarður. Nýlega fengu þau viðurkenningu í 13. sinn vegna vinnu við „Earth Check“ verkefnið. Sveitarfélögin eru aðilar Breiðafjarðarnefnd og við eru að vinna í umhverfismálum í gegnum Svæðisgarðinn. Unnið er að breytingum í sorpmálum í samræmi við nýja Svæðisáætlun og má t.d. nefna söfnun á lífrænum úrgangi. Verið er að skoða möguleika á að komið verði upp sorpbrennslu og fleiri verkefni eru á hugmyndastigi.

   

   

 • Hvaða stefnu hafa sveitarfélögin í sameiningu um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda?

  Sveitarfélögin taka virkan þátt í þeim orkuskiptum sem eru framundan í samfélaginu. Sveitarfélögin munu sjá til þess að fyrirtæki og stofnanir bjóði upp á hleðslustöðvar svo eitthvað sé nefnt. Rafvæðing hafna er hafin og unnið er að enn meiri rafvæðingu á höfnum sem gerir skipum mögulegt að nota innlenda orkugjafa í stað olíu. Unnið er að því að koma upp varmadælum í húsnæði á vegum sveitarfélagana, hitaveitu sem allt spara notkun á raforku sem þá er hægt að nýta annað.

   

   

 • Hverjir eru neikvæðu punktarnir við sameiningu sem komu í ljós í þessari vinnu.

  Nefndin hefur t.d. fjallað um áskoranir varðandi skólamál, áhrif íbúa í dreifbýli á ákvarðanatöku og meðferð eigna og skulda. Að mati nefndarinnar eru það áskoranir sem þarf að leysa hvort sem af sameiningu verður eða ekki. 

   

   

 • Ef af sameiningu verður fá þá Miklhreppingar 10 ferða ( eins og íbúar Ólafsvíkur) fríkort að henda rusli í gámastōð eða verður settur gámur allt árið við Vegamót?

  Allir íbúar hins nýja sveitarfélags sama hvar þeir búa fá kort í gámastöðina. Íbúar í þéttbýli og dreifbýli Snæfellsbæjar hafa setið við sama borð hvað þetta varðar og verður þannig í sameinuðu sveitarfélagi.

  Nefndin leggur til að áfram verði staðsettir gámar í dreifbýlinu í nokkrar vikur yfir sumarið.

  Hins vegar gildir þetta ekki um fyrirtæki þar sem þau sjá sjálf um sín sorpmál og eru ekki rukkuð sérstaklega um sorpgjöld eins og hinn almenni íbúi. Mikilvægt er að gera greinarmun á fyrirtækjum og almenningi, vegna mismunandi gjalddtöku.

   

   

 • Hvaða hugmyndir eru skólamál

  Nefndin leggur til að í sameinuðu sveitarfélagi verði einn grunnskóli og einn leikskóli, en með fleiri kennslustaði. Á íbúafundi þann 16. nóvember komu fram skýrar ábendingar um að vinna hratt og örugglega að því að móta framtíðarsýn í skólamálum á sunnanverðu Nesinu. Verði sameiningartillagan samþykkt í febrúar mun sú vinna hefjast án tafar í samráði við skólasamfélagið.  

   

 • Hver eru fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði í Eyja og Miklaholtshrepp, Staðarsveit, Breiðuvík, Fróðárhreppi, Ólafsvík, Rifi og Hellissandi. Hver er munurinn á milli íbúðarhúsnæði á þessum stöðum?

  Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði eru samheiti fyrir fasteignaskatta, lóðarleigu, vatns-, fráveitu- og sorpgjöld. Það getur verið flókið að bera saman fasteignagjöld milli svæða þar sem fasteignamatið er mismunandi og á að taka mið af verðmæti fasteignarinnar. Fasteignagjöld á verðmætari eign eru því hærri en á verðminni eign.
  Í þéttbýli er land iðulega í eigu sveitarfélagsins og því innheimt lóðarleiga. Á sama hátt eru iðulega reknar vatns- og fráveitur í þéttbýli og innheimt gjöld vegna þeirra. Í dreifbýli sjá landeigendur oft sjálfir um vatnsöflun og greiða ekki lóðarleigu. Þar af leiðandi er líka misjafnt hvaða gjöld fasteignaeigendur greiða eftir því hvar fasteignin er staðsett.
  Við samanburð á milli sveitarfélaganna tveggja má sjá að fasteignaskattar í Eyja- og Miklaholtshreppi eru 0,5% af fasteignamati en 0,44% í Snæfellsbæ. Til að sameinað sveitarfélag haldi sambærilegum tekjum af fasteignasköttum af íbúðarhúsnæði má gera ráð fyrir að fasteignaskattar í Eyja- og Miklaholtshreppi lækki.
 • Eru einhverjar hugmyndir um að byggja nýan skóla miðsvæðis sunnanheiða?

  Það hefur verið rætt, en slíkar ákvarðanir myndu bíða nýrrar sveitarstjórnar. 

   

   

 • Ef sameiningin verður samþykkt, hvað mun sveitarfélagið heita?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

   

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

   

   

 • Hverjir hafa kosningarétt í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga?

  Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu, hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, 18 ára og eldri, hafa kosningarétt ef þeir eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu. Aðrir erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt hafi þér átt skráð lögheimili hér á landi þrjú ár samfleytt fyrir kjördag. Sömu reglur gilda þegar kosið er til sveitarstjórna.

   

   

 • Er atkvæðagreiðslan bindandi?

  Já, niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir.

   

   

 • Fá íbúar að taka þátt í mótun tillögunnar?

  Já. Íbúafundir verða haldnir til að fá sjónarmið og ábendingar frá íbúum sveitarfélaganna. Á fundunum verður kynning á stöðu verkefnisins og umfjöllun um stöðu málaflokka í starfsemi sveitarfélaganna og mögulegar breytingar ef til sameiningar kemur. Fundunum verður streymt á Facebooksíðu Snæfellsbæjar. Á fundinum verður notað rafrænt samráðskerfi svo allir sitji við sama borð, þ.e. þeir sem mæta á fundarstað og þeir sem fylgjast með í streymi. Auk þess verður boðið upp á spurningar og ábendingar úr sal og leitast verður eftir sjónarmiðum íbúa áður en tillaga nefndarinnar liggur endanlega fyrir. 

   

 • Hvernig er hægt að tryggja að í nefndum sameinaðs sveitarfélagsins sitji fulltrúar frá mismunandi svæðum?

  Það verður ekki tryggt, en líkurnar aukast með fleiri með fulltrúum. Framboðin hafa hagsmuni af því að ná til íbúa af öllu svæðinu.

   

   

 • Mun samstarfsnefndin fylgja vinnunni eftir ef af sameiningu verður?

  Samkvæmt lögunum verður skipuð undirbúningsstjórn, sem er yfirleitt skipuð sama fólki og sat í samstarfsnefndinni.

   

   

 • Er einhver lágmarksþátttaka í kosningum um sameinað sveitarfélag?

  Nei. Meiri hluti kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi ræður niðurstöðu kosningar um sameiningu.

   

   

 • Hvað búa margir eða eru margir með lögheimili í Eyja og Miklaholtshreppi?

  102 íbúar þann 1. nóvember 2021 samkvæmt Þjóðskrá.

   

 • Hver má ætla að íbúaþróun verði næstu árin? Það er ekki hægt að taka bara stöðuna á fortíðinni og deginum í dag við framtíðarhorfur í sameiningu.

  Miðspá Byggðastofnunar gerir ráð fyrir íbúafækkun næstu 10 árin, en aðalskipulag og húsnæðisáætlun sveitarfélaganna gerir ráð fyrir fjölgun.

   

 • Er ekki vilji til þess að hlutur Eyja- og Miklaholtshrepps í hitaveitu Eyja - og Miklaholtshrepps fari áfram til sameinaðs sveitafélags?

  Eignir beggja sveitarfélaga verða eignir sameinaðs sveitarfélags, ef tillagan verður samþykkt.

   

 • Hvað með aldraða og fatlaða í EM eftir sameiningu? Hvernig verður þeirri þjónustu háttað? Æ fleiri ná háum aldri sem geta búið heima en þurfa smá aðstoð.

  Sveitarfélögin eru í samstarfi um félagsþjónustu og er ekki búist við að breyting verði á þjónustu vegna sameiningar þeirra.

   

   

 • Hver er fjárhagsstða e og m?

  Sjá minnisblað um fjármál.

   

 • Að öllum líkindum við þessa yfirtöku og eignarfærslu munu íbúar EM fá í staðinn hærra útsvar og fasteignaskatta.

  Það er ekki búist við miklum breytingum á sköttum. Vísbendingar eru um að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði lækki lítillega í Eyja- og Miklaholtshreppi og að útsvar hækki lítillega.

   

   

 • Hvað með tómstunda og íþróttastarf barna og unglinga? Eiga íb. EM að keyra börn sín til Ólafsvíkur (hátt í 100 km aðra leiðina) vegalengdir eru styttri annað í það starf. Hópíþróttir er aldrei hægt að stunda í 20-30 barna skólasamfélagi

  Stefnt er að því að byggja upp frístundastarf samhliða skólastarfi á sunnanverðu Nesinu. Íbúar munu eftir sem áður geta sótt íþróttastarf þar sem þau sækja það nú. 

   

   

 • Hvað með sameiningarmöguleika EM við önnur nærliggjandi sveitarfélög?

  Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið. Að mati sveitarstjórnanna er æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost með það fyrir augum að styrkja byggð á sunnanverðu Nesinu. Það útilokar ekki stærri sameiningu í framtíðinni.